Norðurljós í myrkrinu sem sigraðist á ofbeldi
Prédikun flutt á konudaginn í Ástjarnarkirkju
Náð sé með ykkur og friður frá Guði. Amen
Í guðspjallstexta dagsins spáir Jesús fyrir krossfestingunni og upprisunni fyrir lærisveinum sínum. Krossfestingin er ákveðið form þöggunar, en Jesús barðist t.d fyrir jafnrétti og öllum þeim sem sett voru á jaðarinn, og má þar nefna konur og börn. Rödd kvenna hefur ekki fengið mikið vægi í gegnum tíðina og það er nú ekki oft sem raddir kvenna koma fyrir í Biblíunni, og ef þær koma fyrir þá eru þær gjarnan þaggaðar niður eða gert minna úr þeim en var.
Hvaða hlutverki gengdu konur á þessum tíma?
Konur gengdu mikilvægum hlutverkum, þær voru lærisveinar, trúboðar, prédikarar og postular. Þær voru leiðtogar, en samt var þeirra rödd sett til hliðar. Það var og hefur í gegnum tíðina verið gert minna úr rödd kvenna en karla.
,,Skulu konur þegja á safnaðarsamkomum því að þeim er ekki leyft að tala heldur skulu þær hlýða eins og líka lögmálið býður. En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Konum sæmir ekki að tala á safnaðarsamkomu.”
Þetta textabrot má finna í fyrra bréfi Páls til Kórintumanna, en feðraveldið hefur haft yfirhöndina í gegnum aldirnar og hafa konur mætt verulegu óréttlæti, en óréttlætið má sjá í réttindum kvenna sem hafa verið verulega takmörkuð og hvernig líkami kvenna hefur verið settur upp sem gripur karlmanna til þess að njóta.
Þetta brot úr baráttuljóðinu Fjallkonan eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, rithöfund og baráttukonu, sýnir okkur þessi afkastamiklu kaflaskil sem verða með tilheyrandi látum frá Hallgerði langbrók, þessa gátt sem var opnuð fyrir konur að endurheimta rými sitt á ný, þetta rými sem á að vera jafnt, fyrir okkur öll.
Upprisu Jesú má sjá í allskonar formi í samtíma okkar í dag. Upprisan er beint fyrir framan okkur í allri sinni dýrð og hefur verið að rísa ört og örugglega þar sem konur eru að standa upp og leyfa rödd sinni að heyrast án ótta. Þar sem konur eru að endurheimta líkama sína og læra að elska sig skilyrðislaust. Þar sem konur kjósa barneiginir og frama. Þar sem konur eru ekki lengur bara gripur sem á að vera fallegur og þegja, heldur leiðtogar, forstjórar, forsetar, yfirmenn, prestar og allt þar á milli.
Í dag er dagur kvenna, konudagurinn. Á konudaginn dekrum við konurnar í okkar lífi. Við heiðrum tilvist þeirra td með rósum, köku, nuddi eða jafnvel góðum kvöldverði.
En hvað þýðir það að vera kona?
Nú er ég sjálf kona og get í raun annað hvort talið upp hvað líffræðilega það þýðir að vera kona eða hvað ég persónulega upplifi og tel það þýða að vera kona. Ég ætla að hafa þetta persónulegt. Konur hafa barist með klóm og kjafti fyrir bættum lífsgæðum, fyrir sig og komandi kynslóð kynsystra sinna. Í dag er keflið í okkar höndum, okkar allra, óháð kyni, því sagan hefur kennt okkur að upprisa kvenna dafnar ekki fyrr en jafnrétti er náð.
Krossfestingu Jesú má sjá í formi þöggunar, en eins og ég nefndi áðan þá barðist Jesús td fyrir jafnrétti, konum og börnum.
Þegar hann bauð börnunum að koma til sín þegar aðrir höfðu heimtað að þau yrðu geymd heima.
Þegar hann bjargaði samversku konunni frá grjótkasti dómharðra manna.
Þegar hann læknaði konur á hvíldardegi og losaði þær við skömm fortíðar sinnar.
Frá krossfestingu, reis síðan Jesús upp á þriðja degi sem segir okkur að þegar þöggun á sér stað þá fylgir því upprisa. Upprisa að bættu samfélagi og jafnrétti.
Það er magnað að skoða baráttusögu kvenna og það er magnað að fylgjast með hvað samstaða allra kynja er að verða öflug í átt að jafnrétti þar sem jafningjagrundvöllur ríkir og allir fá sitt rými til þess að blómstra.
Kæri söfnuður, í dag fögnum við konudeginum saman. Við fögnum og gleðjumst yfir upprisu kvenna og hvetjum þær til þess að taka pláss og leyfa rödd sinni að rísa. Konur í dag, sem og alla aðra daga höldum við áfram berjast, stöndum beinar í baki, stoltar og fullar af krafti.
Amen.